03. september. 2010 08:01
Tjaldstæðið í Kalmansvík á Akranesi opnaði í sumar reiðhjólaleigu í samvinnu við Akranesstofu. “Við erum með á bilinu 25 til 30 hjól í öllum stærðum og gerðum. Hjólaleigan er liður í aukinni og bættri þjónustu fyrir ferðamenn en hún hefur verið í kortunum hjá okkur í um tvö ár. Nú þegar hefur komin ágæt reynsla á leiguna en stórar íslenskar barnafjölskyldur og hið svokallaða “Yaris-fólk” hefur sérstaklega verið að nýta sér þessa þjónustu,” segir Guðni Haraldsson umsjónarmaður tjaldsvæðisins í samtali við Skessuhorn. Gjaldskráin fyrir hjólin er samsvarandi gjaldskránni á tjaldstæðinu en einungis kostar 500 krónur að leigja sér hjól yfir daginn.
“Hugmyndin er að hafa tvær stöðvar undir leiguna í bænum; hér og á Upplýsingamiðstöðinni í Görðum. Þá getur fólk leigt sér hjól á einum stað og jafnvel skilað því á hinum. Akranes er einstaklega góður bær til hjólreiða, við höfum einungis þrjár brekkur. Ég hef nú gantast aðeins með það og boðið fólki endurgreiðslu finni það allar þrjár brekkurnar,” segir Guðni Haraldsson.