07. september. 2010 09:01
Á nýliðnu fiskveiðiári var fluttur út óunninn ísaður fiskur á erlenda fiskmarkaði með veiðiskipum og gámum að verðmæti 13,2 milljarðar króna miðað við 17,8 milljarða króna á fiskveiðiárinu 2008/2009. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fiskistofu. Verðmæti útflutts óunnins afla dróst því saman um rúm 26% á milli fiskveiðiára. Útflutt magn dróst einnig verulega saman, úr 58.978 tonnum á fiskveiðiárinu 2008/2009 niður í 38.201 tonn á nýliðnu fiskveiðiári, eða um rúm 35%. Af einstökum tegundum er flutt mest út af ýsu eins og undanfarin fiskveiðiár. Útfluttur ýsuafli á fiskveiðiárinu 2009/10 var 10.736 tonn að verðmæti 3,7 milljarðar króna en var 22.312 tonn fiskveiðiárið 2008/09 að verðmæti 6,5 milljarðar króna.