15. september. 2010 09:01
Bændur í Saurbæ í Dalasýslu taka í notkun nýja fjárrétt þegar smalað verður til réttar næstkomandi sunnudag. Nýja réttin er við Fremri-Brekku og kemur í stað gömlu Múlaréttarinnar sem var orðin ansi léleg og úr sér gengin, að sögn Ólafs Gunnarssonar bónda í Þurranesi II. Nýja réttin er úr timbri og voru það aðallega bændurnir í Saurbænum sem unnu að smíði hennar í sumar, á milli slátta, eins og Ólafur í Þurranesi orðaði það í spjalli við Skessuhorn. Sveitarfélagið Dalabyggð varði á fjárhagsáætlun tveimur og hálfri milljón króna til smíði nýju réttarinnar sem væntanlegar verður kölluð Brekkurétt.