16. september. 2010 01:01
Bygging nýs Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit miðar vel. Í gær stóð yfir uppsláttur vegna næstsíðustu veggsteypunnar á húsinu og verður byrjað að reisa sperrur í lok mánaðarins. Þannig bendir ekkert til annars en skólahúsið verði komið undir þak fyrir veturinn og er því byggingaráætlun á réttu róli. Samningar við verktaka gera ráð fyrir því að skólahúsnæðið verði tilbúið til kennslu fyrir byrjun skólaárs næsta haust. Það er fyrirtækið Mótasmiðir ehf. sem hefur annast uppslátt og steypuvinnu við byggingu nýja Heiðarskóla, og er það undirverktaki aðalvertakans Eyktar. Að sögn Styrmis Steingrímssonar hjá Mótasmiðum hófst uppsláttur 14. maí í vor og höfðu byggingaframkvæmdirnar því staðið yfir í rétta fjóra mánuði þegar blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni. Styrmir sagði verkið hafa gengið vel, um fimm smiðir unnið við uppsláttinn og steypuvinnuna, en aðrir iðnaðarmenn einnig verið að störfum þegar á hefur þurft að halda.