21. september. 2010 08:01
Leiklistaráhugafólk í Hvalfjarðarsveit tók sig saman í lok síðasta mánaðar og endurvakti á fundi Leikfélagið sunnan Skarðsheiðar, sem legið hefur í dvala í allmörg ár. Ný stjórn í félaginu hefur ráðið hina þekktu söngkonu Margréti Eir sem leikstjóra fyrir sýningu vetrarins sem ákveðin verður áður en langt um líður. Máni Björgvinsson formaðurinn í nýju stjórninni segir að enn sem komið er sé leikhópurinn fámennur en áhugasamir og það vanti fleira áhugasamt fólk í félagið.
„Við vonumst til að fá fleiri áhugasama til liðs við okkur svo að hægt sé að fara að ákveða verkefni vetrarins. Stefnan er sett á líflegt stykki sem byggir bæði á leik og söng,“ segir Máni.
Margrét Eir úrskrifaðist úr leiklistarskóla í Bandaríkjunum fyrir rúmum tíu árum og hefur stýrt nokkrum skólasýningum til þessa. Það mun hafa verið Popppunkts stjórinn Felix Bergsson, sem oft hefur skemmt í Hvalfjarðarsveitinni, sem mælti með Margréti sem leikstjóra hjá Leikfélaginu sunnan Skarðsheiðar. Segir Máni formaður félagsins tilhlökkun hjá leikhópnum að vinna með Margréti Eir.