28. september. 2010 04:00
Frumkvöðlasmiðja fyrir ungt fólk er í gangi á Akranesi á vegum Vinnumálastofnunar Vesturlands og Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Meðal þeirra sem sækja námskeiðið eru Ingibjörg Gestsdóttir og María Þórunn Friðriksdóttir. Hugmynd þeirra er að stofna lítið kaffihús þar sem áhersla er lögð á notalegt umhverfi, þægilegt viðmót starfsmanna og ýmsa viðburði. Áhersla verður lögð á heimabakað kaffibrauð með góðu kaffi og súkkulaði. Kleinur, flatkökur með hangikjöti, hjónabandssælu og annað í svipuðum dúr. Sérstaðan yrði sú að þetta kaffihús verður svo miklu meira en bara kaffihús. Þær Ingibjörg og María Þórunn hafa útbúið könnun sem lesendur Skessuhornsvefjarins eru beðnir að taka endilega þátt í. “Á niðurstöðum þessarar könnunar getum við betur gert okkur grein fyrir þörfinni fyrir svona kaffihúsi og þeirri hugmynd sem liggur þar að baki, en að okkar mati er hún nýstárleg.” Til að taka þátt í könnuninni er ýtt HÉR.