30. september. 2010 11:01
Fréttir Skessuhorns ná víða en sjaldan eins langt og dæmi er um í þessari viku. Í síðustu viku fjölluðum við um starfsmannaeklu í fiskvinnslufyrirtækinu G.Run í Grundarfirði þrátt fyrir mikið atvinnuleysi í landinu. Fréttin barst eins og eldur í sinu um alla helstu vefmiðla landsins og að sögn Guðmundar Smára Guðmundssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins stoppaði ekki hjá honum síminn eftir að hún fór í loftið. Aðallega hafi það verið mæður á höfuðborgarsvæðinu á hinum enda línunnar í leit að vinnu fyrir unglinginn á heimilinu. Nokkrir íslenskir starfsmenn hafi verið ráðnir í kjölfarið. Morguninn eftir að fréttin birtist höfðu grískir blaðamenn síðan samband og vildu fá að fjalla um málið í sjónvarpsþætti sínum ytra. Fréttamaðurinn Pavlos Tsimas og upptökumaður hans Xvonis Tsixpakis voru staddir í Grundarfirði síðastliðinn mánudag.
Þeir vinna fyrir fréttaþáttinn Mavro Kouti sem er sýndur tvisvar í mánuði á sjónvarpsstöðinni Mega Channel en það er stærsta sjónvarpsstöð landsins. Kreppunni á Íslandi svipar töluvert til þeirrar sem herjar á Grikkland og mun nálgun fréttamannanna vera sú að bera saman íslenskt og grískt ástand.
Sjá nánar frétt í Skessuhorni vikunnar.