02. nóvember. 2010 12:41
Rökkurdagar hefjast á morgun í Grundarfirði, en þeir hafa verið haldnir á ári hverju síðan 2003. Upphaflega var hugmyndin að lyfta anda bæjarbúa þegar sól færi að lækka á lofti. Hátíðin hefst með opnunartónleikum í samkomuhúsi bæjarins miðvikudagskvöldið kl. 20. Tónleikarnir eru á vegum Tónlistarskóla Grundarfjarðar og Leikklúbbur Grundarfjarðar aðstoðar við að veita gestum ánægjulega kvöldstund. Tónlistarmaðurinn Gunnar Þórðarson bindur síðan enda á Rökkurdaga sunnudaginn 7. nóvember. Hann mun flytja úrval sinna bestu laga einn með kassagítarinn í Grundarfjarðarkirkju.
Fjölbreytt úrval viðburða
Ýmsir viðburðir verða haldnir á Rökkurdögum að þessu sinni og má þar til dæmis nefna spurningaleikinn Kráarvisku (e. Pub Quiz) sem haldin verður á fimmtudagskvöldinu á Kaffi 59 af Meistaraflokksráði. Föstudagskvöldið 5. nóvember verður hljómsveitin Gæðablóð með tónleika á Kaffi 59 og Hótel Framnes heldur seiðandi salsakvöld í samvinnu við tónlistarkennara bæjarins. Þá heimsækir hljómsveit Jonna Ólafs Grundarfjörð og heldur dansleik á laugardagskvöldinu.
Margvíslegar sýningar verða einnig á Rökkurdögum til að gleðja augað. Má þar nefna sýningu 1.-3. bekkja grunnskólans sem verður með sýningu á verkum sínum og ljósmyndasýningu Bærings Cecilssonar sem spannar um 50 ár. Þá sýnir Jón Páll Vilhelmsson landslagsljósmyndir í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og brottflutti Grundfirðingurinn Izabela Frank verður með myndlistasýninguna “Tjáning í Textíl” á Hótel Framnesi.