16. nóvember. 2010 08:01
Ingimar Sveinsson kennari og hestamaður á Hvanneyri flytur fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti, á degi íslenskrar tungu, í kvöld klukkan 20:30. Þar fjallar hann um sérkenni íslenska hestsins og sérstöðu og kynnir einnig bók sína, Hestafræði Ingimars, sem kemur út um þessar mundir hjá bókaútgáfunni Uppheimum á Akranesi. Bókinni er ætlað að nýtast til kennslu í hrossafræðum og sem uppsláttarrit fyrir hinn almenna hestamann. Ingimar mun skýra frá tildrögum þess að hann réðst í að skrifa bókina og hvernig nýta megi efni hennar í ofangreindum tilgangi. Ingimar er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum en fluttist að Hvanneyri 1986 og hefur starfað þar síðan við kennslu og fræðastörf auk þess að stunda hestamennsku og tamningar.
Kl. 20:15, áður en fyrirlesturinn hefst, verður sýnd stutt videomynd af Ingimar og hestinum Pílatusi, sem Guðlaugur Óskarsson tók af þeim félögum sl. sumar.