13. nóvember. 2010 03:38
Opið hús verður í Mennta- og menningarhúsinu í Borgarnesi næstkomandi laugardag. Heiti dagsins er Menntun og skemmtun. Þar verður ýmislegt gert til skemmtunar og meðal annars upplýst hvaða nafn húsinu verður gefið. Borgarbyggð auglýsti nýverið eftir tillögum frá íbúum um nýtt nafn á Mennta- og menningarhúsið. Frestur til að skila inn tillögum rennur út næstkomandi miðvikudag, 17. nóvember. Tillögum ásamt skýringum á nafngiftinni ef svo ber undir skal skila undir dulnefni í ráðhús Borgarbyggðar, Borgarbraut 14, 310 Borgarnesi. Í umslaginu með tillögunni skal vera annað lokað umslag með réttu nafni þátttakanda, heimilisfangi og netfangi/símanúmeri.
Stjórn Borgarfjarðarstofu mun síðan velja nafn út innsendum tillögum og verður niðurstaðan kynnt á hátíðinni „Menntun og skemmtun“ nk. laugardag. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir það nafn sem fyrir valinu verður.
Í tilkynningu frá Borgarfjarðarstofu segir að sveitarfélagið Borgarbyggð hafi um árabil verið mennta- og menningarhérað og þar beri hæst tveir háskólar, á Bifröst og Hvanneyri. “Auk þess starfar hér nýr og framsækinn menntaskóli. Grunnurinn er einnig góður en leikskólar Borgarbyggðar eru fimm, hver með sínu sniði, tveir grunnskólar og tónlistarskóli.” Í tilefn þess að sveitarfélagið er að eignast mennta-og menningarhúsið í Borgarnesi verður blásið til hátíðar í húsinu þar sem leik-, tón-, grunn-, mennta- og háskólar héraðsins kynna sig og starfsemi sína á skemmtilegan hátt. Auk þess munu menningarstofnanir eins og Landnámssetur, Brúðuheimar, Safnahús, Landbúnaðarsafnið og Snorrastofa taka þátt í hátíðinni að ógleymdum hinu áttræða en síunga RÚV, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og nýstofnuðu dansstúdíói Evu Karenar.
Yfirskrift hátíðarinnar ber með sér áherslu á að menntun er skemmtun og þeir sem koma á hátíðina fá skemmtun á stóra sviðinu í salnum en einnig verður boðið upp á örfyrirlestra um ólík og áhugaverð málefni. Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir.