21. nóvember. 2010 01:46
Lögreglan í Borgarfirði og Dölum óskaði sl. föstudag eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir að henni höfðu borist nokkrar ábendingar um rjúpnaveiðimenn innan umdæmisins sem ekki fylgdu reglum sem í gildi eru um rjúpnaveiðar. Höfð voru afskipti af 16 veiðimönnum og hald lagt á fimm haglabyssur og þrjár rjúpur í þessari aðgerð. Í gær var búið að afhenda tvær haglabyssur aftur til eigenda sinna sem og rjúpurnar þrjár. Hin málin eru enn til frekari rannsóknar hjá LBD. Þess má geta að sambærilegt eftirlit fór fram í síðustu viku á Snæfellsnesi þar sem þyrla og lögreglumenn á landi höfðu afskipti af rjúpnaveiðimönnum.
Að sögn Theodórs Þórðarsonar yfirlögregluþjóns í Borgarnesi er mikilvægt að veiðimenn séu meðvitaðir um nokkur grunnatriði við rjúpnaveiðar. Þeir skulu t.d. hafa meðferðis gilt skotvopnaleyfi fyrir þeim skotvopnum sem þeir hafa meðferðis. Þá skulu menn hafa gild veiðikort með í för. Við veiðar á fuglum skulu margskota byssur vera þannig að þær taki ekki nema tvö skot í skotgeymi, þ.e.a.s. svokallaður pinni á að vera í skotgeymi. Þá segir hann að bannað sé að nota önnur farartæki en bifreiðar til að flytja menn að og frá veiðislóð og skulu skotvopn vera óhlaðin í 250 m. fjarlægð frá ökutækinu. Við fuglaveiðar er óheimilt að nota haglabyssu með hlaupvídd stærri en nr. 12.