25. nóvember. 2010 01:29
Laugardaginn 27. nóvember nk. kemur Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur til fundar við íbúa Hvalfjarðarsveitar og nágrennis. Steinunn verður á Bjarteyjarsandi með nýjustu bók sína: Heimanfylgja, sem er frásögn af Hallgrími Péturssyni frá fæðingu og til þess er hann heldur af landi brott á unglingsárum. Steinunn hefur rannsakað líf og skáldskap Hallgríms Péturssonar um árabil en áður hefur hún skrifað bók um ævintýralegt lífshlaup Guðríðar, eiginkonu Hallgríms. Gera má ráð fyrir að Steinunn verði á Bjarteyjarsandi um kl. 15.00 á laugardaginn.
Fleiri góðir gestir heimsækja Álfhól á Bjarteyjarsandi um helgina. Steinar Berg, rithöfundur og ferðaþjónustufrömuður kemur með nýjustu tröllabókina sína á sunnudaginn en það er sagan um Hringaló og Grýlu. Það er af mörgum sögð vera skemmtilegasta tröllabókin til þessa. Tröllabækur Steinars eru skemmtileg ævintýri fyrir fólk á öllum aldri, sem lifna svo sannarlega við þegar höfundurinn segir frá og les.
Það er einnig von á Sæmundi Sigumundssyni rútubílstjóra, en sem Vestlendingum er kunnugt hefur Bragi Þórðarson gefið út bók um rútubílstjórann landsþekkta. Fleiri gestir reka inn nefið um helgina, tónlistarfólk á öllum aldri, listafólk og aðrir gestir. Það eru því allir hjartanlega velkomnir í Álfhól á Bjarteyjarsandi um helgina. Maður er manns gaman.
-fréttatilkynning