26. nóvember. 2010 09:01
 |
Eftir að hvalveiðum lauk hefur atvinnuleysi á Vesturlandi aukist til muna. |
Vinnumarkaðsráð Vesturlands fundaði sl. miðvikudag og var þar meðal annars farið yfir atvinnuástandið á Vesturlandi og rýnt í atvinnuleysistölur. Á fundinum kom m.a. fram að atvinnuleysi hefur verið að aukast á Akranesi á milli mánaða. Í september voru 197 einstaklingar á Akranesi án atvinnu eða sem nemur 5,6%, en í október voru 242 án atvinnu sem nemur 6,8% atvinnuleysi. Ástæða þessarar aukningar er fyrst og fremst sú að hvalveiðum lauk á þessu tímabili en um 150 manns víðsvegar af Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu höfðu atvinnu af hvalveiðunum.
Það kom einnig fram hjá fulltrúum Vinnumarkaðsráðs á fundinum að þeir töldu Vinnumálastofnun á Vesturlandi standa sig einstaklega vel í hinum ýmsu málum er lúta að atvinnuleitendum. Einkum þótti þeim starfsmenn Vinnumálastofnunar leggja mikið á sig við hin ýmsu vinnumarkaðsúrræði handa atvinnuleitendum. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness á sæti í Vinnumarkaðsráði Vesturlands. Hann segir að ráðið hafi þungar áhyggjur af því atvinnuástandi sem nú er á Vesturlandi og vilji að við því verði brugðist, til dæmis með aukningu á aflaheimildum. Þá hafi Vinnumarkaðsráð Vesturlands áhyggjur af þeim mikla niðurskurði sem boðaður hefur verið í heilbrigðiskerfinu.