27. desember. 2010 03:20
Þórður Guðnason félagi í Björgunarfélagi Akraness var í dag valinn Hetja ársins 2010 af lesendum DV. Þórður fékk afgerandi kosningu. Sjálfur tekur hann fram að þetta hafi verið samstarf allra þeirra sem komu að þeirri erfiðu björgun sem um ræðir á Langjökli sl. vetur og að hann hafi verið einn hlekkur í langri keðju. „Ég er mjög ánægður með að fólki finnist þetta um mig og þetta eflir mann í starfinu,“ segir Þórður. Atvikið sem um ræðir var þegar Þórður og félagar hans í Landsbjörgu unnu gífurlegt þrekvirki við björgun sjö ára drengs úr sprungu á Langjökli. Drengurinn hafði fallið ofan í 30 metra djúpa sprungu ásamt móður sinni, sem lést í slysinu. Liðsmenn Björgunarfélags Akraness, ásamt öðrum björgunarsveitum, voru kallaðir út en þegar komið var á jökulinn var sú ákvörðun tekin að Þórður skyldi látinn síga niður í sprunguna til mæðginanna.
Í um það bil klukkutíma hékk hann á hvolfi við afar erfiðar aðstæður og á tímabili átti hann erfitt með öndun þar sem sprungan þrengdi að brjóstkassa hans. Þurfti þá að hífa hann ofar áður en hann fór aftur niður. Í þriðju tilraun náði hann að koma línu um fót drengsins og bjargaði honum á ótrúlegan hátt. Um fjórir tímar liðu frá því að drengurinn féll niður um sprunguna þar til hann náðist upp og var hann því orðinn kaldur og þrekaður.
Sjá nánar: www.dv.is
Þess má geta að Þórður Guðnason fékk einnig fjölda tilnefninga í valinu á Vestlendingi ársins 2010, sem Skessuhorn gekkst að vanda fyrir. Úrslit úr þeirri kosningu verða hins vegar ekki endanlega kunngerð fyrr en 5. janúar nk.