04. febrúar. 2011 01:16
Mjög litlar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða en þó eru smá tilfærslur milli stjórnarflokkanna. Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að fylgi við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð eykst um ríflega eitt prósentustig, en rösklega 19% segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag. Að sama skapi minnkar fylgi Samfylkingarinnar um tæplega tvö prósentustig og mælist flokkurinn nú með liðlega 22% fylgi, sem er svipað og hann mældist með í nóvember. Fylgi Sjálfstæðis– og Framsóknarflokksins er nær óbreytt milli mánaða. Rösklega 34% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag og ríflega 13% myndu kjósa Framsóknarflokkinn. Fylgi Hreyfingarinnar mælist liðlega 4%, sem er tveimur prósentustigum minna en fyrir mánuði. Nær 7% segjast myndu kjósa aðra flokka sem er um tveimur prósentustigum meira en fyrir mánuði. Ríflega 15% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og nálægt 16% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosningar færu fram í dag.