17. maí. 2011 11:03
Tuttugasta og önnur Álfasala SÁÁ fer fram 19.-22. maí næstkomandi. Eins og undanfarin ár er álfurinn tileinkaður unga fólkinu og mun allt söfnunarfé renna til rekstrar unglingadeildar SÁÁ á sjúkrahúsinu Vogi. Álfasalan skiptir SÁÁ gríðarlega miklu máli og er mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna. Salan er sérlega mikilvæg núna þegar fjárveitingar og styrkir einkaaðila hafa verulega dregist saman. Það hefur þegar leitt til mikils samdráttar í starfi samtakanna. Með góðum árangri í sölunni í ár getum við hugsanlega haldið í horfinu og haldið áfram að aðstoða fólk við að ná áttum í sínu lífi og koma undir sig fótunum á ný í allsgáðu lífi. Það er fátt eins ánægjulegt og að sjá þetta unga fólk blómstra á ný og öðlast ný tækifæri í lífinu.
Álfurinn verður til sölu víðsvegar á landinu, í stórverslunum, við alla útsölustaði ÁTVR og nýlundan í ár er að N1 hefur gengið til liðs við SÁÁ og ætlar að bjóða upp á Álfinn á sínum bensínstöðvum víðsvegar um landið. Auk þess verður hægt að kaupa Álfinn með rafrænum hætti inn á heimasíðu SÁÁ, www.saa.is.