03. júní. 2011 09:30
Egill SH er gerður út af útgerðarfyrirtækinu Litla lóni í Ólafsvík. Þetta er 105 tonna bátur og útgerðin hófst árið 1985. Hann var ekki á sjó þegar blaðamaður var á ferð í Ólafsvík og talaði við Jens, sem er eigandi og stýrimaður. Hann sagði norðanbræluna ekki vera ástæðu fyrir því að hann væri ekki á sjó þann daginn heldur kvótaleysi. Jens er fæddur og uppalinn Ólsari. Snemma varð hann sjómaður og fór að fást við útgerð. „Við feðgarnir urðum atvinnulausir á þessum tíma, ég og Sigurður Jónsson fósturfaðir minn. Því var ákveðið að kaupa bát og hefja útgerð til að skapa okkur vinnu og hann varð skipstjórinn og er enn. Hann keypti auðvitað bátinn og ég fékk að fljóta með aðeins 18 ára gamall. Þau eiga þetta fyrirtæki, Sigurður fósturfaðir minn og mamma mín Metta Guðmundsdóttir. Þetta er fjölskyldufyrirtæki og við erum þrjú systkinin að vinna við þetta,“ segir Jens Brynjólfsson, stýrimaður á Agli SH.
Í sérblaði sem fylgir Skessuhorni vikunnar, tileinkuðu sjómannadeginum, má finna viðtal við Jens Brynjólfsson stýrimann í Ólafsvík.