06. júní. 2011 08:01
Síðastliðinn föstudag voru 62 nemendur brautskráðir frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Athöfnin fór að venju fram í Reykholtskirkju að viðstöddu fjölmenni. Brautskráð var af fjórum námsstigum; 24 búfræðingar, 32 með BS-próf, fimm með meistaragráða og einn með doktorsgráðu, en það var Elsa Albertsdóttir sem útskrifaðist sem doktor frá auðlindadeild skólans. Í fyrsta skipti voru útskrifaðir nemendur af meistraranámsbraut í skipulagsfræði frá skólanum, en sú námsbraut hefur nú hlotið viðurkenningu Skipulagsfræðingafélags Íslands.
Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ sagði í ræðu sinni að það væri einkum þrennt úr starfsemi skólans sem stæði upp úr nú. “Á liðnu skólaári fór fram fyrsta doktorsvörnin frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Þetta má telja mikinn áfanga í þróun skólans. Rannsóknamiðað framhaldsnám er nýjung í starfsemi skólans og einungis fáein ár frá því að meistaranám var innleitt í námsframboðið og útskrifaðist fyrsti meistaraneminn á fyrsta starfsári LbhÍ árið 2005. Raunar er það þannig að framhaldsnám af þessu tagi er ungt í sögu háskólastarfs á Íslandi en mikið hefur breyst í þessum efnum nú síðustu árin,“ sagði Ágúst. Í annan stað nefndi hann nýstofnað Hollvinafélag Landbúnaðarháskóla Íslands og í þriðja lagi samstarfsnet opinberu háskólanna hér á landi.
Við útskriftina voru veittar ýmsar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, en lista með nöfnum þeirra má finna á vef skólans: www.lbhi.is