14. júní. 2011 07:01
Metfjöldi kandídata var brautskráður frá Háskóla Íslands sl. laugardag en þess var jafnframt minnst að hundrað ár eru liðin frá stofnun Háskóla Íslands. Nú eru um 450 manns í doktorsnámi við skólann, hluti þeirra í fullu launuðu starfi við vísindarannsóknir á ýmsum sviðum. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, vakti á því athygli í ræðu við brautskráningu á laugardaginn að hvarvetna á Vesturlöndum væri það markmið að fjölga doktorsnemum vegna óska atvinnulífsins um betur menntað fólk. Brautskráningin á laugardaginn var í tvennu lagi og fór hún fram í Laugardalshöll. 1.816 kandídata voru brautskráðir; 1.138 úr grunnnámi og 678 úr framhaldsnámi.
Kristín sagði í ræðu sinni að fjölgun doktorsnema í launuðum vísindarannsóknum hafi gert skólann að raunverulegum alþjóðlegum rannsóknaháskóla. Starfsfólk HÍ hefur á síðustu fimm árum fengið samþykkt 24 ný einkaleyfi á uppgötvunum á sviðum eðlisfræði, lyfjafræði, reikniverkfræði, sameindalíffræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, læknisfræði, efnafræði, tannlæknisfræði og tölvunarfræði. Þá hafa verið stofnuð á fimmta tug sprotafyrirtækja sem hafa verið byggð á rannsóknum kennara og nemenda við skólann. Rektor gat þess í ræðu sinni að stjórnmálaleiðtogar um allan heim litu nú á háskólauppbyggingu sem lykilþátt til að vinna samfélagið út úr efnahagskreppu og treysta samkeppnishæfni. Íslenskir stjórnmálamenn hefðu uppi sömu sjónarmið og sama skilning. Allar þjóðir sem við berðum okkur saman við hefðu byrjað stórsókn á sviði háskólamenntunar. Samkeppnin myndi því aukast verulega og ef við fylgdum ekki eftir af sama krafti myndum við dragast hratt aftur úr. Því væri mikilvægt að byggja af krafti upp á þeim grunni sem lagður hefði verið í aldarlöngu starfi Háskóla Íslands.