13. júní. 2011 07:08
Knattspyrnufélagið Kári á Akranesi sigraði lið Ísbjarnarins í leik sem fram fór fimmtudaginn 9. júní. Leikið var á gervigrasvellinum við Kórinn í Kópavogi í fremur köldu veðri og stífum vindi. Almar Björn Viðarsson skoraði fyrsta mark Káramanna og gamla brýnið Valdimar K. Sigurðsson skoraði síðan tvö mörk í röð með fimm mínútna millibili. Valdi er orðinn 43 ára og ætlar greinilega ekkert að slaka á, að minnsta kosti ekki í markaskorun, en hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu Íslandsmótsins, þegar allar deildir eru teknar með í reikninginn. Eyþór Ólafur Frímannson bætti að lokum við fjórða marki Káramanna og öruggur 0-4 sigur Kára því í höfn. Liðið hefur nú spilað fjóra leiki, unnið þrjá en tapað einum.
Næsti leikur Kára er topp- og Vesturlandsslagur af bestu gerð þegar þeir heimsækja Grundarfjörð, laugardaginn 18. júní.