14. júní. 2011 02:18
Skráð atvinnuleysi í nýliðnum maí var 7,4% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði og voru á landinu öllu að meðaltali 12.553 atvinnulausir í mánuðinum. Atvinnulausum fækkað um 709 að meðaltali frá apríl eða um 0,7 prósentustig. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 642 en konum um 67. Þetta kemur fram í tölum Vinnumálastofnunar yfir atvinnuástandið. Atvinnuleysi á Vesturlandi minnkaði um 0,8 prósentustig í mánuðinum og er 1,1 prósentustigi minna en það var í sama mánuði fyrir ári. Álíka þróun varð í öðrum landshlutum en mesti batinn milli mánaða var þó á Suðurlandi þar sem atvinnuástandið batnaði um 1,5 prósentustig frá apríl til maí. Atvinnulausum fækkaði um 296 á höfuðborgarsvæðinu og um 413 á landsbyggðinni í maí.
Atvinnuleysið var 8,2% á höfuðborgarsvæðinu en 6,1% á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum 12,1%, en minnst á Norðurlandi vestra 3,2%. Atvinnuleysi í maí var 7,7% meðal karla og 7,1% meðal kvenna í landinu.