15. júní. 2011 02:25
Pokasjóður verslunarinnar tilkynnti í dag hvaða félög og einstaklingar fái styrki úr sjóðnum þetta árið, en úthlutað er árlega. Sjóðurinn fær tekjur af sölu burðarpoka í verslunum og í ár er heildarupphæð styrkja rúmar 56 milljónir sem veittar eru til 67 verkefna. Hæstu styrkina í ár fá Skógræktarfélag Íslands og foreldrasamtökin Vímulaus æska, 5 milljónir hvort félag. Styrkurinn til Skógræktarfélagsins dreifist síðan til aðildarfélaga þess og styrkurinn til Vímulausrar æsku er ætlaður sjálfsstyrkingarnámskeiði fyrir börn og unglinga. Sem fyrr njóta nokkur verkefni hér á Vesturlandi góðs af úthlutun Pokasjóðs og eru þau þrjú talsins í ár. Gunnar Njálsson á Grundarfirði fær 170.000 krónur til hönnunar og smíða á skiltum og vegvísum á skógræktarsvæði. Skógræktarfélag Stykkishólms fær 200.000 krónur til byggingar útikennslustofu við Grensás í Stykkishólmi. Að lokum fær Hvalfjarðarsveit hálfa milljón sem ætluð er í framkvæmdir við göngustíg að fossinum Glym.