29. júní. 2011 09:41
Afrekshópar golfklúbbsins Leynis verða með bækistöðvar við Hafnarhúsið á Akranesi laugardaginn 2. júlí, upp úr hádeginu og fram eftir degi. Þetta er heldur óvenjuleg staðsetning fyrir kylfinga, en gestir og gangandi á Írskum dögum geta slegið golfbolta á skotmark úti á Akraneshöfn gegn vægu gjaldi. Er þetta fjáröflun fyrir afreksstarf Leynismanna. Leikurinn gengur út á að þeir sem hitta skotmarkið fá nafn sitt í pott og eiga þar með möguleika á að vinna til veglegra verðlauna. Það er verslunin Omnis sem er bakhjarl Leynismanna í þessu verkefni.
Sigurður Elvar Þórólfsson, formaður barna - og unglinganefndar Leynis, segir að þessi hugmynd hafi lengi verið til umræðu hjá kylfingum á Akranesi. “Með þessu uppátæki viljum við kynna golfíþróttina á nýjum stað. Ég er ekki í vafa um að mörg frábær högg verða slegin við höfnina á laugardaginn. Við erum með stóran barna- og unglingahóp sem æfir golfíþróttina af krafti og þessi fjáröflun er liður í því að efla starf okkar,” segir Sigurður Elvar, en allur útbúnaður verður til staðar við Hafnarhúsið, kylfur og boltar. Og jafnvel verður hægt að "kaupa" góð högg frá flinkum kylfingum gegn gjaldi.