29. júní. 2011 11:37
Þegar árrisulir Grundfirðingar vöknuðu í morgun var fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins lagst við ankeri úti fyrir höfninni. Von er á 15 skemmtiferðaskipum til Grundarfjarðar í sumar. Þar af koma níu skip í júlí, fjögur í ágúst en síðasta skipið kemur 2. september. Stærsta skip sumarsins verður á ferðinni 17. ágúst en það er Ocean Princesse. Skipið sem kom í morgun er það þriðja stærsta sem væntanlegt er í sumar; 174 metrar á lengd, 28 metrar á breidd og ristir 8,2 metra. Það heitir Costa Marina og er rúmlega 25 þúsund tonn að stærð. Um borð eru á fimmta hundrað franskir farþegar auk áhafnar. Þeir eru ferjarðir frá borði í land með léttabátum skipsins.
Hljómsveit er um borð í skipinu og var hún ferjuð með fyrstu ferð klukkan sjö í morgun. Hún tekur lagið í hvert skipti sem léttabátur kemur með farþegana að bryggju en það tók tíma sinn að ferja þá frá borði. Þegar blaðamaður Skessuhorns ræddi við hafnarvörð í Grundarfirði um tíuleytið í morgun var enn verið að ferja.
Farþegarnir fara með átta rútum um Snæfellsnes í dag og ætla einhverjir þeirra að nýta sér ferð sérleyfishafans Sterna sem farinn er að bjóða upp á hringferð um Snæfellsnesið fyrir ferðamann. Skipsflautur Costa Marina verða síðan þandar um sjöleytið í kvöld þegar þetta stóra skip siglir út Grundarfjörð, eftir að hinir frönsku farþegar þess hafa virt fyrir sér náttúrufegurð og þjónustu sem í boði er á Snæfellsnesi.
Næsta skip sem kemur til Grundarfjarðar er væntanlegt strax á sunnudaginn.