29. júní. 2011 01:27
Í gærmorgun voru opnuð tilboð í byggingu níu rýma hjúkrunardeildar á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi. Fjórir verktakar buðu í verkið og voru tilboðin öll undir kostnaðaráætlun sem var 204 milljónir króna, utan eins frávikstilboðs, sem væntanlega kemur ekki til með að reyna á. Það var fyrirtækið VHE ehf. frá Hafnarfirði sem bauð lægst, eða 145 milljónir. Sjammi bauð 181 milljón, Eykt hf. 186 milljónir og var með frávikstilboð upp á 175 milljónir og Sveinbjörn Sigurðsson bauð 189 milljónir og var með frávikstilboð upp á 235 milljónir. Tilboðin verða nú yfirfarin og stefnt er að afgreiðslu málsins í stjórn Höfða í næstu viku. Verkáætlun gerir ráð fyrir að nýbyggingin verði tekin í notkun síðsumars á næsta ári. Með tilkomu nýju hjúkrunarrýmanna, ásamt öðrum breytingum sem felast einnig í útboðsverkinu, munu tvíbýli á dvalarheimilinu heyra sögunni til.