01. júlí. 2011 12:49
Fallinn er frá er einn öflugasti stuðningsmaður Skagaliðsins, Arnór Pétursson. Á yngri árum spilaði hann fyrir ÍA og var bráðefnilegur leikmaður, en eftir slys var hann bundinn við hjólastól. Það aftraði honum þó aldrei frá því að mæta á allflesta leiki Skagaliðsins síðustu áratugi og taka þátt í mörgum fræknum sigrum. Arnór var fylginn sér og hafði skoðanir á málum. Hann tók virkan þátt í réttindabaráttu fatlaðra og gaf hvergi eftir þegar sanngirni og réttlæti var annars vegar. Með sama áhuga og elju tók hann þátt í að styðja Skagaliðið og hafði þar margt gott og jákvætt fram að leggja. Það er skarð fyrir skildi við andlát Arnórs, en klárt að piltarnir í meistaraflokki munu heiðra minningu hans með því að ná þeim markmiðum sem upp hafa verið sett og koma félaginu okkar aftur í fremstu röð.
Lífsbarátta Arnórs er öðrum til eftirbreytni - hann gafst aldrei upp og var trúr lífsskoðunum sínum allt til loka. Arnór mun verða með okkur í anda og við höldum á lofti minningu hans og heiðri með því að ná þeim árangri sem Arnór bar fyrir brjósti. Stjórn og leikmenn KFÍA senda fjölskyldu Arnórs hugheilar samúðarkveðjur um leið og þakkað er fyrir mikilsvert og óeigingjarnt framlag hans til knattspyrnunnar á Akranesi.
F.h. stjórnar KFÍA
Gísli Gíslason.