13. júlí. 2011 09:01
Útivistarhátíðin Sjálfstætt fólk verður haldin að Hlöðum í Hvalfirði um verslunarmannahelgina, 29. júlí til 1. ágúst. SÁÁ skipuleggur og stendur fyrir hátíðinni sem að sjálfsögðu verður vímuefnalaus. Markmið þeirra sem að hátíðinni standa er að stuðla að virkri lífsgleði og heilbrigðu líferni. Boðið verður upp á holla og kraftmikla félagslega, andlega og líkamlega næringu og skemmtun sem allir aldurshópar geta notið saman. Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir gesti og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi en meðal annars verður boðið upp á hugleiðslu, yoga, 12 spora fundi, svett, fyrirlestur um hamingju, lífsgleði og gæsku. Einnig verða skipulagðar fjallgöngur, hjólreiðar, sjósund, grasaferðir, morgunleikfimi og víðavangshlaup fyrir þá sem hafa áhuga á slíku. Þá verður fjölbreytt skemmtidagskrá.