19. júlí. 2011 01:16
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur samþykkt að kæra ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands vegna útgáfu starfsleyfis fyrir Stjörnugrís hf. að Melum. Ástæður kærunnar eru þær að ekki hafi verið tekið fullt tillit til athugasemda sveitarfélagsins í umsögn umhverfis- og náttúruverndarnefndar um starfsleyfið. Skessuhorn hefur umsögn þessa undir höndum og meðal þeirra atriða sem sveitarfélagið fer fram á er að hreinsun á útblæstri skuli vera einn af þeim þáttum sem starfsleyfið tekur á, þar sem kvartanir hafa borist vegna lyktar frá búinu eins og kunnugt er. Tryggja verði með skýrum hætti að ekki séu fleiri en 8000 grísir samtímis í svínahúsum og að heildarársframleiðsla fari ekki yfir 24.000 grísi. Þá er gerð athugasemd við að ekki sé tekið á því í starfsleyfi hversu margar gyltur séu leyfðar á búinu. Einnig þurfi að bæta í starfsleyfi ákvæðum ef starfsemi rekstraraðila á staðnum leggst niður, að fram komi hvernig ganga skuli frá rekstrarúrgangi, spilliefnum, dýrum og mannvirkjum.
Þá þurfi að tryggja þrif á húsum með skýrum hætti í starfsleyfinu og bundið slitlag skuli við dyr þar sem afhending dýra fer fram og eins á öllum aksturs- og vinnusvæðum við húsin.
Í umsögn umhverfis- og náttúruverndarnefndar segir að lokum að ekki skuli samþykkja starfsleyfið fyrr en þessar athugasemdir hafa allar verið teknar til greina. Slíkt hafi hins vegar ekki verið gert og því hafi sveitarfélagið brugðið á það ráð að kæra ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands.