Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. ágúst. 2011 09:01

Leita mynda og upplýsinga um Perlu Fáfnisdóttur frá 1972

Héraðsskjalasafn Akraness leitar nú að myndum af kvígunni „Miss Young Iceland“ sem tók þátt í Fegurðarsamkeppni á Akranesi árið 1972. Málum var þannig háttað í september árið 1972 að reykvískar rauðsokkur stóðu fyrir kynningarfundi á Akranesi sama dag og fegurðarsamkeppni var haldin á Hótel Akranesi. Rauðsokkum fannst því tilvalið að mótmæla slíkum „gripasýningum“ með því að halda eigin fegurðarsamkeppni fyrir utan hótelið. Þar var krýnd Perla Fáfnisdóttir, kvíga undan eðal kynbótanauti frá Galtalæk í Skilmannahreppi. Perla hlaut mikla athygli og lof viðstaddra sem óskuðu henni velgengni á komandi framabraut sem hún ætti fyrir sér á alþjóðavísu.

„Ef þú hefur nánari upplýsingar og jafnvel ljósmyndir af þessum atburði þá vildi héraðsskjalasafnið gjarnan að þú sendir póst á skjalasafn@akranes.is eða hefðir samband í síma 433-1203,“ segir í tilkynningu frá safninu.

Gluggað í gamlan Tíma

Í dagblaðinu Tímanum, á forsíðu blaðsins 12. september 1972 segir:
„Auðhumla er fræg í fornum trúfræðum og Búkolla í þjóðsögum af nýrra tagi. Perla Fáfnisdóttir Blesasonar er nútiðarkvíga, sem sennilega kemst á varir fleiri manna en aðrar nautkindur islenzkar næstu vikurnar. Það lá sem sé við borð, að hún yrði kosin fegurðardrottning á fegurðarsamkeppni kvenkynsins á Akranesi á sunnudagskvöldið. Sumir gefa jafnvel í skyn, að það séu rangindi ein, að hún hreppti ekki titilinn.

Forsaga þessa máls er sú, að undanfarin ár hefur fólk héðan úr Reykjavik haft með höndum fegurðarsamkeppni úti um allt land, þar sem stúlkur hafa verið valdar fegurðardrottningar síns lögsagnarumdæmis. Í ár keyptu tveir menn „réttinn" af þessu fólki, þetta árið, að sögn á hálfa milljón króna, og hafa þeir verið i förum síðustu daga með fegurðarsamkeppni sina. Í sparnaðarskyni hafa þeir þó enga dómnefnd á sinum snærum, heldur skera sjálfir úr, þegar úrskurðar er þörf.“

 

Perla Fáfnisdóttir kemur til sögunnar

Heldur svo áfram frásögninni í Tímanum:
„Á sunnudagskvöldið var samkoma af þessu tagi haldin í Hótel Akranesi. Kom þar allmargt manna, um hálft annað hundrað, og aðgangur seldur á þrjú hundruð og fimmtíu krónur (þriðjungur þess fer í skemmtanaskatt). En þó að fríða kynið skartaði þar miklum blóma, gekk fremur tregt að fá stúlkur til þess að taka þátt i samkeppninni. Að lokum urðu þær þó þrjár, er létu til leiðast að stíga upp á pallinn. Aftur á móti birtist þar fyrir dyrum úti keppandi, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir: Það var Perla Fáfnisdóttir Blesasonar. Nærvera hennar átti einnig sinn aðdraganda. Á sunnudaginn komu um tuttugu konur úr Reykjavik, allt rauðsokkur, upp á Akranes og boðuðu þar til fundar, sem stóð í þrjár klukkustundir. Að því loknu snæddu aðkomukonurnar í gistihúsinu, en héldu síðan inn að Galtalæk til fundar við Sæmund bónda Helgason, eiganda Perlu. Óku þær með kvíguna út á Akranes, og komu þangað á tíunda klukkutímanum.

 

Rauðsokkur með rauðsokkótta kvígu

Meðal kvennanna úr Reykjavik voru þær Vilborg Harðardóttir kennari og Svava Jakobsdóttir rithöfundur, er báðar standa framarlega í hreyfingu rauðsokka. „Þetta er afskaplega falleg kvíga,“ sögðu þær, er Timinn sneri sér til þeirra „hvít með rauða fætur. Með öðrum orðum rauðsokka eins og við. Við staðnæmdust með hana á gangstéttinni utan við gistihúsið, settum á hana silfurkórónu og bundum um hálsinn á henni borða, sem á var letrað: „Miss Young Iceland.“ Og svo vorum við með ýmsar áletranir, til dæmis: „Allir á veiðar: Músaveiðar, gæsaveiðar, héraveiðar, stúlknaveiðar".  Og svo líka: „Veljið sjálfir til að spara". Það var orðið rokkið, því að þetta var svo seint á kvöldi, en þarna dreif að fólk eins og gefur að skilja, og sumt af því kom út úr húsinu. Eftir svo sem hálftíma héldum við burt og skiluðum kvígunni heim til sín.

 

Brjóstmál eða brjóstgæði

„Ég held nú varla, að Perla hafi verið nærri því að sigra,“ sagði Óli Ólason, gistihússtjóri á Akranesi. „En atkvæði fékk hún, það er alveg hárrétt. Ég sá ekkert athugavert við þetta, nema þá að vera með kálfinn innan um hálffulla unglinga, þó svo þær stæðu vörð um hann. Svo hef ég hérna spurningalista, sem rauðsokkurnar útbýttu, til minja um kvöldið. Það er uppkast að skoðanakönnun. Þar er í fyrsta lagi spurt, hvað eigi að vega þyngst á metunum í svona samkeppni: Brjóstmál eða brjóstgæði, mjaðmamál eða mannkostir, þyngd eða þolinmæði, fegurð eða félagsþroski. Í öðru er um það spurt, hvað freisti fólks til þess að láta sýna sig svona: Gróðavon, menntavon, frægðarvon eða hégómagirnd. Í þriðja lagi er um það spurt, í hvers þágu þetta sé gert: Sýningargripanna, þjóðfélagsins, þeirra sem skemmta eða skemmtanaiðnaðarins. Fjórða og síðasta spurningin var um það, hvert ágóðinn rynni: Til stúlknanna, sem sýna sig, til þeirra, sem horfa á, til mjaltavélarinnar Ópus eða í landhelgissjóð.“

 

Allar rauðsokkur hinar prúðustu

„Þetta fór allt friðsamlega fram,“ sagði lögreglumaður sá á Akranesi, er fyrir svörum varð, þegar álits lögreglunnar var leitað. „Rauðsokkurnar voru mjög prúðar og háttvísar og létu ekki á sig fá, þó að keppandi þeirra fengi ekki að ganga í salinn. Og kvígan rauðsokkótta var til sannrar fyrirmyndar i allri hegðun.“

Lýkur hér með tilvitnun í Tímann frá 12. september 1972.

Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is