19. september. 2011 06:48
Meðal bráðabirgðaákvæða við fiskveiðistjórnunarlög sem samþykkt voru á Alþingi á liðnu vori var heimild til ráðherra að úthluta 2000 tonnum af íslensku sumargotssíldinni til veiðiskipa við landið. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að þessi kvóti úr síldarpottinum, sem í nýju ákvæðunum laganna var tekinn út úr aflamarkskerfinu, verði auglýstur á næstu dögum. Ráðherra á von á því að hægt verði að byrja veiðar fljótlega í næsta mánuði. “Það er ánægjulegt að útgerðir minni veiðiskipa geti nú fengið á leigu ákveðið magn síldar til veiða og vinnslu,” sagði Jón Bjarnason í samtali við Skessuhorn. En þess má geta að Snæfellingum hefur t.d. sviðið að fá ekki einu sinni að veiða síld til beitu, þegar torfurnar hafa vaðið skammt frá landi, jafnvel inni í höfnunum.
Ennfremur segir í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði að útgerðir eigi þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip, gegn greiðslu gjalds allt að 20 lestum síldar í senn. Þrettán krónur skal gjaldið vera á hvert kíló af síld.