27. september. 2011 06:48
Aftur byrjaði að rjúka úr strompi Sements-verksmiðjunnar á Akranesi í gærmorgun, en þá hafði verið slökkt á ofni verksmiðjunnar frá því um miðjan júní. Sama dag var einnig skipað upp 3400 tonnum af kolum við Grundartangahöfn sem notuð verða við gjallframleiðslu næstu sjö vikurnar, en eftir það er aftur gert ráð fyrir hléi á gjallframleiðslu í verksmiðjunni fram á næsta ár. Tvo daga þarf til upphitunar á ofninum og þurrkun fóðringa í honum, að sögn Gunnars H. Sigurðssonar framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar. Framleiðsla byrjar í verksmiðjunni á morgun. Framleidd eru um níu þúsund tonn af gjalli á mánuði og verða því væntanlega framleidd rúmlega 16 þúsund tonn þessar sjö vikur sem verður síðasta framleiðslutímabil gjalls í verksmiðjunni á þessu ári. Reiknað er með að gjallið sem framleidd verður þessar sjö vikur endist til sementsframleiðslu fram í mars.
Gunnar sagði í samtali við Skessuhorn að útlit væri fyrir enn minni sementsframleiðslu á þessu ári en því síðasta. Framleiðslan í ár verði aðeins 32.000 tonn af sementi í stað 38.600 tonna á síðasta ári.
“Verksmiðjan er nú komin niður fyrir 30% af framleiðslugetu og útlitið er mjög dökkt fyrir komandi vetur. Þetta er orðið ansi langt tímabil stöðnunar frá hruni haustið 2008 og ljóst að stjórnvöld verða að fara að koma einhverjum framkvæmdum af stað. Þetta er hræðilegt ástand,” segir Gunnar í samtali við Skessuhorn, en ljóst er að aðeins verður framleitt gjall til sementsgerðar í þrjár og hálfan mánuð í verksmiðjunni á þessu ári.