03. október. 2011 11:01
Alvarlegur skortur á læknum á Vesturlandi er mikið áhyggjuefni, að því er fram kom á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem fram fór um liðna helgi. Aðalfundurinn skorar á heilbrigðisyfirvöld að endurskoða starfsumhverfi lækna á landsbyggðinni með það að leiðarljósi að gera það eftirsóknarvert fyrir lækna að setjast að og starfa á Íslandi. Læknaskortur ógnar öryggi fólks og því mikilvægt að fundin verði lausn sem dugar til frambúðar. Aðalfundur SSV lýsir miklum áhyggjum af því að öryggi íbúa og lögreglumanna á Vesturlandi verði ógnað með frekari niðurskurði í löggæslumálum. Sparnaður hefur þegar veikt löggæsluna og lengra má ekki ganga enda eru stór svæði á Vesturlandi oft á tíðum án nærþjónustu lögreglunnar.
Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á aðalfundi SSV og verður hægt að lesa þær í heild í næsta blaði Skessuhorns.