04. október. 2011 10:20
Næstkomandi fimmtudag verður Grundaskóli á Akranesi 30 ára. Að sögn Sigurðar Arnar Sigurðssonar aðstoðarskólastjóra er fyrirhugað að fagna þessum tímamótum allt þetta skólaár með margvíslegum hætti. Hins vegar verður haldið upp á sjálfan afmælisdaginn sérstaklega nú á fimmtudag og reyndar föstudaginn 7. október einnig. Á fimmtudaginn er hugmyndin að hafa afmælissamsöng í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka. Tillaga er gerð um að bekkir klæðist rauðu og hvítu sem eru einkennislitir skólans. Litaskipting verður þannig að nemendur í bekkjum með oddatölu klæðast þá rauðu en bekkir með sléttri tölu hvítu. Foreldrum, leikskólum og öðrum gestum verður boðið að koma á þennan samsöng þannig að búist er við fjölmenni og miklu fjöri.
Sjá nánar í Skessuhorni sem kemur út í fyrramálið.