05. október. 2011 01:01
Magnús Níelsson er eigandi Gæðakokka ehf. í Borgarnesi ásamt eiginkonu sinn Völu Lee Jóhannsdóttur. Hann vann að því síðasta vetur og fram á vor að innrétta kjötbúð í húsnæði kjötvinnslunnar að Sólbakka 11 í Borgarnesi. Aðstaðan hefur staðið tilbúin síðan snemma sumars, en kjötborðið er tómt og ekki fyrirséð hvenær af opnun þess verður. „Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég hef ekkert að selja úr kjötborðinu,“ segir Magnús aðspurður um ástæðu. Hann vandar ekki slátuleyfishöfum kveðjurnar og segir smærri kjötvinnslur og framleiðendur ekki sitja við sama borð og þeir stærri. „Það er búið að vera að fækka sláturleyfishöfum undanfarin ár í skjóli hagræðingar. Það sem raunverulega hefur gerst er að á markaðnum í dag eru fáir stórir aðilar í sterkri einokunaraðstöðu sem við minni framleiðendur líðum fyrir varðandi kjötframboð.
Þegar ofan á bætist að slátrun og vinnsla er komin undir sama hatt sitja framleiðendur sem hafa ekki beinan aðgang að sláturhúsum gegnum eignaraðild úti í kuldanum með mjög skerta samkeppnisaðstöðu við þá stærri. Um leið og framboð af kjöti fór að minnka fór verð að snarhækka frá stærri framleiðendum,“ segir Magnús.
Nánar er rætt við Magnús Níelsson eiganda Gæðakokka ehf. í Borgarnesi í Skessuhorni vikunnar.