06. október. 2011 02:48
Nú er laxveiðitímabilinu 2011 lokið að undanskilinni veiði í fáeinum hafbeitarám þar sem veitt er fram í október. Það eru Eystri- og Ytri Rangá, Affallið og Þverá í Fljótshlíð. Á vef Landssambands veiðifélaga segir að enn eigi veiðitölur eftir að skila sér úr örfáum af þeim 25 viðmiðunarám sem LV heldur uppi reglubundinni skráningu um. „En eitt er þó alveg ljóst nú þegar, en það er að þetta verður annaðhvort fjórða eða fimmta besta veiðisumar frá upphafi mælinga,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson á Skálpastöðum um niðurstöðu sumarsins á vef LV.
Þorsteinn segir að líklegt sé að 5-6 hundruð laxar náist til viðbótar. Þá verði veiðin um það bið þúsund löxum minni en hún var sumarið 2007. „Vonir okkar um að síðbúnar laxagöngur í vor myndu endast betur fram á haustið en venja er til, hafa þannig ekki ræst. Hvað viðmiðunarárnar okkar varðar eru þetta næst lægstu tölur síðan 2006. Það dugar samt til að gera þetta að fimmta besta veiðisumri frá upphafi mælinga. Enn vantar heildartölur um laxveiði á landinu öllu, sem varla verða ljósar fyrr en eftir áramótin. Þar sem hlutfalið milli talna úr viðmiðunaránum 25 á móti heildarveiðinni er engan vegin fast, má vel vera að þar verði röðin önnur.“