10. október. 2011 01:32
Lið Snæfells vann sinn fyrsta sigur í unglingaflokki á þessu keppnistímabili þegar ÍR-ingar komu í heimsókn í Hólminn um helgina. Áður hafi Snæfell tapað fyrir Fjölni í Grafarvogi. Jafnræði var í leik Snæfells og ÍR framan af og var jafnt eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta hertu heimamenn varnarleikinn og náðu góðu forskoti. Í hálfleik var staðan 45:36 fyrir Snæfelli. Snæfellsstrákunum tókst að varðveita þetta forskot áfram með góðum leikkafla í byrjun þriðja leikhluta og var staðan fyrir lokakaflann 61:51. ÍR-ingar gáfust ekki upp og voru að standa sig vel. Þeir minnkuðu muninn í 65:61 en þeir Snjólfur Björns og Egill sáu til þess að auka muninn með góðum körfum. Lokatölur urðu 79:69 fyrir Snæfelli.
Egill Egilsson var stigahæstur hjá Snæfelli með 26 stig, Guðni Sumarliðason kom næstur með 19, Snjólfur Björnsson skoraði 9 stig, Davíð Guðmundsson og Birgir Þór Sverrisson 7, Magnús Ingi Hjálmarsson og Þorbergur Helgi Sæþórsson 4 hvor og Andrés Kristjánsson 3. Hjá ÍR var Tómas Viggósson stigahæstur með 18.