13. október. 2011 10:20
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, hefur óskað eftir því við formann Umhverfis- og samgöngunefndar að boðað verði til fundar í nefndinni til að ræða fjárhagsstöðu lítilla og meðalstórra sveitarfélaga. „Í ljósi ákvörðunar fjármálaráðherra og innanríkisráðherra að taka 300 milljónir á þessu ári af aukaframlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða niður skuldir sveitarfélagsins Álftanes þá er mikilvægt að fara yfir þau fjárhagslegu áhrif sem þetta kann að valda hjá sveitarfélögum víða um land,“ segir í tilkynningu frá Ásmundi. Óskar hann eftir að fulltrúar ráðherra mæti á fundinn auk fulltrúa Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.