14. október. 2011 09:01
Hin árlega Sauðamessa verður landin í Borgarnesi á morgun, laugardaginn 15. október. Hefst dagurinn með fjárrekstri frá Dvalarheimili aldraðra kl. 13.30, eftir Borgarbraut og í Skallagrímsgarð. Svokallað messuhald hefst síðan í Skallagrímsgarði kl. 14. Meðal þeirra sem fram koma eru Óskar Pétursson söngvari, The Big Ace band, Kristján Björn Snorrason úr Upplyftingu, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Þórarinn Hjartarson frá Tjörn í Svarfaðardal. Þá verður keppt í lærakappáti, sauðamessumarkaðurinn verður á sínum stað og Borgfirskir Sauðfjárbændur bjóða öllum í kjötsúpu. Veittar verða viðurkenningar fyrir sauðslegasta klæðaburðinn í þremur flokkum; fallegasta lopapeysan, frumlegasta lopaflíkin og flottasta lopahúfan. Kl. 16.33, að loknum hátíðahöldum í Skallagrímsgarði, hefst ungbændakeppni við Menntaskóla Borgarfjarðar. Þar keppa ungir bændur úr hverjum landsfjórðungi í þori, þoli, snerpu, útsjónarsemi og grimmd, eins og segir í auglýsingu. Hljómsveitin Skítamórall mun síðan að lokum spila á réttardansleik í Reiðhöllinni milli kl. 22 og 2.