14. október. 2011 08:01
Skráð atvinnuleysi í september 2011 var 6,6 % og að meðaltali voru 10.759 atvinnulausir í landinu. Fækkaði atvinnulausum um 535 að meðaltali frá ágúst eða um 0,1 prósentustig, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun um atvinnuástandið. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 249 að meðaltali og konum um 286. Atvinnulausum fækkaði um 379 á höfuðborgarsvæðinu og um 156 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 7,6% á höfuðborgarsvæðinu en 4,9% á landsbyggðinni.
Á Vesturlandi mælist atvinnuleysið nú 3,2%, 2,7% hjá körlum og 3,8% hjá konum. Í heild fækkaði atvinnulausum í landshlutanum milli mánaða, frá ágúst til september, um 0,3 prósentustig af áætluðum mannafla, 0,4 hjá kölum og 0,1 hjá konum.
Atvinnuástand á Austurlandi er mjög svipað og á Vesturlandi, 3,1% atvinnuleysi. Minnst er atvinnuleysið á Norðurlandi vestra 2,1% og næstminnst á Vestfjörðum 2,4%. Mest var það sem fyrr á Suðurnesjum 10,7% og næst mest á höfuðborgarsvæðinu, sem fyrr segir 7,6%. Atvinnuleysið í heild á landinu var 6,4% meðal karla og 6,8% meðal kvenna.