14. október. 2011 11:01
Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún áréttar fyrri ályktanir um mikilvægi þess að lækka skatt á smokkum úr 25,5% í 7%. Sé það ein þeirra leiða sem færar séu til að gera smokka ódýrari, eins og sóttvarnaráð hefur kallað eftir. Á síðasta ári greindust 24 einstaklingar hér á landi með HIV, fleiri en nokkru sinni áður. Tíðni leghálskrabbameins hefur einnig aukist, sem orsakast meðal annars af HPV veirusmitum.
Klamedíusmitum hefur einnig fjölgað. „Fólk sem hefur ekki efni á smokkum hættir ekki að stunda kynlíf, það hættir að stunda varið kynlíf,“ segir í yfirlýsingu SUF.