17. október. 2011 11:52
Eina bílaþvottastöðin sem starfrækt hefur verið í Borgarnesi síðustu árin var rifin síðastliðinn fimmtudag. Þar með er ekki lengur hægt að þvo bíla í bæjarfélagi sem þekkt er fyrir mikla umferð ferðafólks og þar sem hátt í tvö þúsund íbúar búa. Bílaþvottastöðin sem rifin var sl. fimmtudag var gjaldskyldustöð og stóð við Shellstöðina á Brúartorgi. Þar eru nú framundan stórfelldar breytingar. Komið verður fyrir bráðabirgðahúsi á lóðinni þar sem þvottastöðin stóð og mun það hús verða nýtt sem verslun þar sem rífa á hús söluskálans og byggja nýjan á lóðinni.
Mjög algengt er að olíufélög reki þvottaplön við þjónustustöðvar sínar. Fjórar bensínstöðvar eru nú í Borgarnesi; frá Olís, Skeljungi og N1 í einum hnapp við Brúartorg og Atlantsolía á lóð ofan við Sólbakka. Engin bílaþvottaaðstaða er við þessar stöðvar. Þrátt fyrir ályktun byggðarráðs Borgarbyggðar, kvartanir frá fjölda íbúa, hópferðabílstjórum og öðrum ökumönnum hafa olíufélögin ekki brugðist við áskorunum um að bæta úr ástandinu.