18. október. 2011 09:01
Hinn árlegi haustfagnaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu verður haldinn um næstu helgi. Jón Egill Jóhannsson, formaður stjórnar, segir hátíðina leggjast vel í sig og gaman sé hve margir taki þátt. Haustfagnaðurinn er nú haldinn í sjöunda skipti og hefur jafnt og þétt stækkað ár frá ári. “Í fyrstu var þetta aðallega lambhrútasýning en nú orðið er í mörg horn að líta,” segir Jón Egill. Aðspurður hvort eitthvað nýtt sé á ferðinni á hátíðinni í ár segir hann fagnaðinn vera með nokkuð hefðbundnu sniði. Í Reiðhöllinni á laugardeginum verða þó nokkrar konur úr Dölum með sýningu á ullarvinnslu þar sem meðal annars verður hægt að taka í rokk, sem sé nýtt á nálinni.
“Hápunktur Haustfagnaðarins er þó orðinn sviðaveislan sem haldin er í Dalabúð á föstudagskvöldið. Fullt hús var í fyrra og það er þegar búið að fylla húsið í ár. Þetta strandar orðið á húsnæði því það er ekki skemmtilegt að þurfa að setja mörk,” sagði hann en alls komast 300 manns í Dalabúð.
Af öðrum viðburðum á Haustfagnaðinum má til dæmis nefna Opna UDN hrútamótið í innanhússknattspyrnu, meistaramót Íslands í rúningi, prjónasamkeppni FSD, vélasýningu og markað. Þá verður barnadagskrá á laugardeginum þar sem upprennandi bændur spreyta sig í þrautum og leikjum undir leiðsögn Skátafélagsins Stíganda, grillveisla og verðlaunaafhending verður í Dalabúð kl. 18.30 og að lokum munu drengirnir í Svörtum fötum vera með stórdansleik.
“Gestir hátíðarinnar spanna orðið allt landið og ég á ekki von á að fjöldinn verði minni en í fyrra. Þá taldi ég um fimm hundruð manns í Reiðhöllinni. Ætla má að á annað þúsund manns renni hérna í gegn um helgina, þó þeir sæki ekki alla viðburðina,” sagði Jón Egill að lokum.