18. október. 2011 01:41
Kynningarvika Rauða kross Íslands stendur .þessa viku, dagana 17. – 23. október. Af því tilefni munu deildir á Vesturlandi sem og annarsstaðar standa fyrir ýmsum kynningum á starfi sínu. Meðal annars mun fylgja Skessuhorni á morgun átta síðna sérblað um RKÍ deildina á Akranesi sem fagnar 70 ára afmæli um þessar mundir. Í ýmis horn er að líta í tilefni kynningarvikunni víðar og mörg verkefni í gangi. Ættu allir sem vilja láta gott af sér leiða að finna sér verkefni við hæfi undir merkjum félagsins. Meðal dagskrárliða Borgarfjarðardeildar er tískusýning þar sem sýnd verða föt úr Rauða kross búðinni í Borgarnesi.
„Af því tilefni ætlum við að vera með margt skemmtilegt í gangi, ber þar hæst tískusýning í Hyrnutorgi föstudaginn 21. október klukkan 15. Okkur vantar hresst og skemmtilegt fólk í öllum stærðum og gerðum frá 0-100 ára til að taka þátt með okkur. Allir koma saman og velja sér dress í Rauðakrossbúðinni í Borgarnesi á miðvikudagskvöld, á fimmtudagskvöld komum við saman og æfum okkur lítillega að ganga í múnderingunni og svo verða herlegheitin sett upp, líkt og fyrr segir, á föstudag klukkan 15 í Hyrnutorgi. Þannig að ef þú hefur áhuga að taka þátt og leggja góðu málefni lið með gleði og glensi þá er hægt að hafa samband við mig í síma 857 7100,“ segir Ólöf María Brynjarsdóttir starfsmaður Borgarfjarardeildar RKÍ.
Meðfylgjandi mynd var tekin við æfingar fyrir tískusýningu sem deildin hélt á Brákarhátíðinni sem haldin var í Borgarnesi seinnipartinn í júní sl.