18. október. 2011 01:55
Í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 319.090 manns á landinu, 160.130 karlar og 158.960 konur. Landsmönnum fækkaði um 90 í ársfjórðungnum. Erlendir ríkisborgarar voru 20.960 og á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 203.240 manns. Á 3. ársfjórðungi fæddust 1.220 börn, en 470 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 850 einstaklingar frá landinu umfram aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 690 umfram aðflutta, en brottfluttir erlendir ríkisborgarar voru 160 fleiri en þeir sem fluttust til landsins. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu. Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara, en þangað fluttust 590 manns á þriðja ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 1.380 Íslendingar. Af þeim 1.000 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, eða 360 manns.