20. október. 2011 09:01
Leikklúbbur Laxdæla í Dalabyggð ætlar að halda upp á fertugsafmæli félagsins með pompi og prakt helgina 18.-20. nóvember næstkomandi. Af því tilefni eru nú hafnar æfingar á Skóarakonunni dæmalausu eftir Frederico Garcia Lorca, en það var einmitt fyrsta verk félagsins þegar það var stofnað í mars 1971. Leikstjórinn er Margrét Ákadóttir en hún vann einnig með hópnum í tilefni Jörfagleði á síðasta vori þegar leikklúbburinn setti upp Baðstofuna eftir Hugleik Dagsson.
Frumsýnt verður í Dalabúð föstudaginn 18. nóvember. Á laugardeginum verður síðan opið hús fyrir alla, þar sem saga félagsins verður rakin í máli og myndum. Það kvöld verður haldið upp á afmælið með samsæti og síðan dansað við undirleik Sniglabandsins. Á sunnudeginum er áætluð önnur sýning á Skóarakonunni. Leikklúbbur Laxdæla óskar eftir upplýsingum frá öllum þeim sem búa yfir einhverri vitneskju eða minningum sem tengjast félaginu og er þeim bent á að tala við formanninn; Katrínu Lilju Ólafsdóttur.