19. október. 2011 03:31
Sambandsþing Ungmennafélags Íslands var haldið í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri 15.- 17. október sl. Um 120 manns sátu þingið en alls áttu 135 fulltrúar rétt til setu frá 18 héraðssamböndum og 10 félögum með beina aðild. Stefán Skafti Steinólfsson frá Umf. Skipaskaga á Akranesi var einn fjögurra sem kosnir voru nýir í stjórn UMFÍ, en athygli vakti að hann flutti framboðsræðu sína í bundnu máli. Ósagt skal látið hvort hafi ráðið meiru ræðan eða mannkostirnir um það að hann fékk langflest atkvæði þeirra sem kosnir voru nýir í stjórn.
Mikil endurnýjun
Mikil endurnýjun varð í stjórn og varastjórn félagsins, en fjórir af sex hafa ekki starfað í stjórn UMFÍ áður og í varastjórn voru þrír af fjórum nýir. Kjör þeirra þykir góður þverskurður af landinu en stjórn UMFÍ er skipuð eftirfarandi: Nýir inn í aðalstjórn: Stefán Skafti Steinólfsson, Umf. Skipaskaga, Haukur Valtýsson, Umf. Akureyrar, Jón Pálsson, UMFK og Bolli Gunnarsson Skarphéðni. Þær Björg Jakobsdóttir og Eyrún Harpa Hlynsdóttir voru endurkjörnar. Í varastjórn koma inn ný þau Baldur Daníelsson, HSÞ, Matthildur Ásmundardóttir Úlfljóti og Anna María Elíasdóttir USVH. Einar Kristján Jónsson, Vesturhlíð var endurkjörinn í varastjórn.
Stendur vel þrátt fyrir áföll
Skafti segir bjart yfir málefnum UMFÍ. „Félagið stendur vel þrátt fyrir að hafa fengið sinn skerf af ágangi og eftirmálum kreppunnar og því full ástæða til bjartsýni um framtíð ungmennafélagsandans. Þingið mótar starfsemi sambandsins næstu tvö árin en stígandi hefur verið í starfi þess undanfarin ár og því mikil áskorun til nýrra stjórnarmanna að halda merki félagsins á lofti og efla enn frekar. Ný stjórn mun hittast á sínum fyrsta fundi 28. október næstkomandi og þar munu línur væntanlega skýrast varðandi starfið næstu ár,“ segir Skafti.
Fyrir áhugasama má hér sjá framboðsræðu Skafta:
Hérna finnst mér hátt í loft
hlaða má því lofi
ferskan anda fæ hér oft
finnst mér gott í Hofi.
Ættaður úr eðalsveit
elti dætur braga
aurum stýri, er á beit
uppi á Skipaskaga.
Bundnu máli beita vil
braga íþrótt stunda
upp um fjöll ég af og til
orkumikill skunda.
Ást mín er á UMFÍ
oft ég skelli skolti
ef að stjórn ég kæmist í
ærðist ég af stolti.
Framboð mitt ég færi á borð
fáar hef ég gráður
en mig skortir aldrei orð
engum er ég háður.