24. október. 2011 11:10
Síðasta vika var vika vonbrigða hjá kvennaliði Snæfells. Eftir fljúgandi start í byrjun, sigur í tveimur fyrstu leikjunum gegn Val og Haukum, var sigurinn dæmdur af þeim gegn Hafnafjarðarliðnu, sem Snæfell vann sl. miðvikudagskvöld 73:69. Snæfellsstúlkur töpuðu síðan fyrir KR í Frostaskjólinu í gær og eru því aðeins með tvö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Leikurinn gegn KR endaði 79:72. Snæfellsstúlkur sýndu ágætan leik og stóðu lengi vel í KR-ingum en náðu ekki að klára dæmið. Snæfell var betra liðið framan af fyrri hálfleik en KR tókst að komast yfir áður en blásið var til hálfleiks, 36:34. Einungis átta stúlkur voru á skýrslu hjá Snæfelli í leiknum og breiddin því minni en hjá heimaliðinu, en talsvert er um meiðsli í herbúðum Snæfells um þessar mundir. Kieraah Marlow var stigahæst hjá Snæfelli með 23 stig og Alda Leif Jónsdóttir kom næst með 16.
Sigurinn var dæmdum af Snæfellsstúlkum gegn Haukum þar sem Marlow reyndist ekki hafa verið komin með leikheimild í tæka tíð. Var Haukum því dæmdur sigur, 20:0.
Næsti leikur hjá Snæfellskonum verður gegn Hamri í Stykkishólmi nk. sunnudag.