26. október. 2011 10:33
Áttunda árið í röð stendur KFUM & KFUK hreyfingin á Íslandi fyrir verkefninu ,,Jól í skókassa.” Verkefnið felst í að fá börn jafnt sem fullorðna til að setja nokkrar gjafir í skókassa. Kössunum er síðan útdeilt til barna í Úkraínu en markmiðið er að gleðja þurfandi börn í anda jólanna. „Það hefur sannarlega tekist síðastliðin ár og hafa þau sem standa að verkefninu fylgt því eftir og tekið þátt í dreifingu gjafanna í Úkraínu. Þar hafa þau upplifað mikla gleði með gjafirnar,“ segir í tilkynningu frá KFUM og KFUK.
Úkraína er stórt land þar sem um 50 milljónir búa. Atvinnuleysi er mikið og ástandið víða bágborið. Á svæðunum þar sem skókössunum er dreift er allt að 80% atvinnuleysi og fara kassarnir meðal annars á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna fátækra einstæðra foreldra. Fólk er hvatt til að taka þátt og fylgja leiðbeiningum en það er mikilvægt að börnin fái svipaðar gjafir.
Í leiðbeiningum til þeirra sem vilja leggja verkefninu lið segir m.a.: „Byrjið á að finna tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að mikilvægt er að pakka lokinu sérstaklega inn svo hægt sé að opna pakkann. Ákveðið fyrir hvaða aldurshóp gjöfin á að vera; strák eða stelpu 2-4 ára, 5-9 ára, 10-14 ára og 15-18 ára og merkið með viðeigandi merkimiða á lokið. Setjið svo gjafir eins og ritföng, föt, leikföng, hreinlætisvörur og sælgæti í skókassann. Best er að setja einn hlut úr hverjum þessara flokka í kassann. Setjið að lokum 500-800 kr í umslag efst í kassann fyrir sendingarkostnaði.“
Þrír móttökustaðir á Vesturlandi
Móttökustaðir KFUM og KFUK á Vesturlandi eru þrír; á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Á Akranesi í húsi KFUM & KFUK, Garðabraut 1, dagana 3. 4. 7. 8 og 9. nóvember kl. 18:00-19:30. Tengiliður þar er Irena Rut Jónsdóttir, sími 868-1383. Í Stykkishólmi verður móttaka á skókössum þriðjudaginn 1. nóvember frá kl. 16-19 í Stykkishólmskirkju. Tengiliður þar er Ásdís Herrý Ásmundsdóttir sími 438-1387. Í Grundarfirði var ekki búið að ákveða móttökutíma skókassa þegar tilkynning barst Skessuhorni, en tengiliðir þar eru Anna Husgaard Andreasen sími 663-0159 og Salbjörg Sigríður Nóadóttir sími 896-6650.
Í Reykjavík verður tekið við skókössum í aðalstöðvunum að Holtavegi 28 alla virka daga frá kl. 9-17. Síðasti skiladagur er laugardagurinn 12. nóvember frá kl. 11-16.