03. nóvember. 2011 08:50
Í norðan hríðarveðri sem gekk yfir vestasta hluta landsins í nótt fór rafmangið af í syðri hluta Miðdala og er rafmangslaust ennþá. Vinnuflokkar eru komnir á staðinn og er reiknað með að rafmagnið verði komið á fyrir hádegi. Í tilkynningu frá Rarik á Vesturlandi segir að staurar séu brotnir og háspennulína slitin.
Sigursteinn Hjartarson bóndi í Neðri-Hundadal sagði að mjög hvasst hefði verið fram eftir nóttu og snjór væri niður í miðjar hlíðar í Miðdölunum. Trúlega hafi snjó hlaðið á línurnar í ísingarveðrinu en hitastigið var niður undir frostmarki í byggð. Rafmagnið hafi verið farið af fyrir fimm leytið í morgun, sennilega hafi staurarnir fallið um eða fyrir miðja nóttina með tilheyrandi rafmagnsleysi. Sigursteinn sagði að hvergi væri ljós að sjá á nokkru svæði í suður Miðdölunum, nema á Erpsstöðum, en þar er stærsta mjólkurbúið í Dölum. Til að mynda væri allt í myrkri á hjúkrunarheimilinu Fellsenda, sagði Sigursteinn, þegar Skessuhorn hafði tal af honum í morgun.