14. nóvember. 2011 03:54
Inga Elín Cryer sundkonan knáa í Sundfélagi Akraness stóð sig frábærlega á Meistaramóti Íslands í 25 metra laug sem fram fór í Laugardalslauginni um helgina. Hún setti m.a. þrjú Íslandsmet, í 200 metra flugsundi og 400 og 800 metra skriðsundi og hlaut að auki silfurverðlaun í 200 metra skriðsundi. Þessum árangri náði Inga Elín þrátt fyrir að ganga ekki heil til skógar, hefur átt við hálsbólgu að stríða síðustu dagana og þurfti hún m.a. að sleppa boðsundi á mótinu af þeim sökum. Inga Elín, sem verður átján ára í þessum mánuði, hefur að sögn þjálfara síns Mads Clausen verið mjög dugleg að æfa, ekki síst síðustu mánuðina og meðal annars keyrt á nokkrar æfingar í Reykjavík í viku hverri, en þegar sundfólk er komið í þann klassa sem Inga Elín er komin, er betra að æfa í innilaug með lengri brautum.